Þann 23. október síðastliðinn sendi Golfsamband Íslands frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Golfsamband Íslands samþykkti á síðasta stjórnarfundi tillögu mótanefndar GSÍ þess efnis að Íslandsmótið í golfi árið 2022 fari fram í Vestmannaeyjum dagana 4.- 7. ágúst. Mótanefnd hafði áður farið yfir þær umsóknir sem bárust um að halda Íslandsmótið í golfi árið 2022.
Það liggur því fyrir að hvar næstu tvö Íslandsmót í golfi fara fram. Árið 2021 fer Íslandsmótið fram á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar og árið 2022 í Vestmannaeyjum. Golfsamband Íslands er framkvæmdaraðili Íslandsmótsins í samstarfi við þá golfklúbba þar sem að mótin fara fram.
Íslandsmótið 2022 verður það fimmta í röðinni í Vestmannaeyjum frá því að völlurinn var stækkaður í 18 holur en fyrir þann tíma hafði mótið farið fjórum sinnum fram á Vestmannaeyjavelli þegar völlurinn 9 holur. Íslandsmótið í golfi fór fram í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum árið 1959 þar sem að heimamaðurinn Sveinn Ársælsson sigraði. Á næsta áratug fór mótið þrisvar sinnum til viðbótar fram í Vestmannaeyjum. Óttar Yngvason (GR) vann árið 1962, Magnús Guðmundsson (GA) árið 1964. Árið 1968 var tvöfaldur sigur hjá GS þar sem að Þorbjörn Kjærbo og Guðfinna Sigurþórsdóttir sigruðu. Það var jafnframt í annað sinn sem keppt var um Íslandsmeistaratitlinn í kvennaflokki.
Það liðu 35 ár þar til að Íslandsmótið fór fram að nýju í Eyjum. Birgir Leifur Hafþórsson (GL) og Karen Sævarsdóttir (GS) sigruðu árið 1996. Karen er dóttir Guðfinnu sem sigraði árið 1968. Árið 2003 sigraði Birgir Leifur á ný og þá fyrir GKG og Ragnhildur Sigurðardóttir (GR) sigraði í kvennaflokki. Kristján Þór Einarsson (GM) og Helena Árnadóttir (GR) sigruðu árið 2008. Árið 2018 sigraði Keilir tvöfalt þegar Axel Bóasson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum.
Hlökkum við hjá GV til þess að takast á við verkefnið og lofum við glæsilegu móti.
Comments