Aðalfundur Golfklúbbs Vestmannaeyja fór fram fimmtudaginn 2. febrúar.
Fram kom að rekstrarhagnaður GV var tæplega 10 milljónir króna en umfangsmiklar framkvæmdir hafa staðið yfir við viðbyggingu golfskálans. Framkvæmdaáætlun hljóðaði upp á 120 milljónir króna og áætlað er að framkvæmdum ljúki á árinu. Var stjórn GV endurkjörin.
Afkomendur Gunnars Björns Stefánssonar, Gunnars í Gerði afhentu GV gjafabréf upp á kr. 100.000.- til minningar um þann mikla kylfing sem hefði orðið 100 ára þann 16. desember síðastliðinn. Sigursteinn Leifsson barnabarn Gunnars afhenti Sigursveini Þórðarsyni formanni GV gjafabréfið. Er fjármagninu ætlað í barna- og unglingastarf GV. Afkomendur Gunnars sem stóðu að gjöfinni voru:
Leifur Gunnarsson – Inga Birna Sigursteinsdóttir Gunnar Guðni Leifsson – Ásta Kristjánsdóttir Sigursteinn Bjarni Leifsson – Helga Björk Ólafsdóttir
Stjórn GV þakkar kærlega fyrir stuðninginn.
Á aðalfundinum var Örlygur Helgi Grímsson valinn kylfingur ársins 2022 og Andri Erlingsson valinn sá efnilegasti.
Árið 2022 varð Örlygur Helgi sigursælasti kylfingur í sögu GV þegar hann hampaði meistaratitli GV í fimmtánda sinn. Hann sló þar með met Sveins Ársælssonar sem var meistari í fjórtán skipti. Örlygur Helgi hefur verið í fremstu röð kylfinga í Eyjum síðustu tvo áratugi og verið lykilmaður í sveit GV sem leikur í 1.deild. Örlygur, var ásamt tíu öðrum kylfingur úr Eyjum þátttakandi í Íslandsmótinu í höggleik og stóð sig með mikilli prýði.
Andri Erlingsson hefur á síðustu árum verið einn efnilegasti kylfingur Eyjamanna. Hann hefur verið að bæta sinn leik mikið undanfarin ár. Hann tók þátt í unglingamótaröð GSÍ, Íslandsmóti unglinga í höggleik sem og Íslandsmótinu í holukeppni. Þá tók hann þátt í fyrsta skipti í Íslandsmótinu í höggleik, hér í Eyjum síðastliðið sumar. Andri er farinn að banka á landsliðsdyrnar og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.
Stjórn GV óskar þeim Örlygi og Andra innilega til hamingju með titla sína.
コメント