top of page
Search
Writer's pictureRúnar Gauti Gunnarsson

Örlygur kylfingur ársins og Andri efnilegastur

Aðalfundur Golfklúbbs Vestmannaeyja fór fram fimmtudaginn 2. febrúar.

Fram kom að rekstrarhagnaður GV var tæplega 10 milljónir króna en umfangsmiklar framkvæmdir hafa staðið yfir við viðbyggingu golfskálans. Framkvæmdaáætlun hljóðaði upp á 120 milljónir króna og áætlað er að framkvæmdum ljúki á árinu. Var stjórn GV endurkjörin.


Afkomendur Gunnars Björns Stefánssonar, Gunnars í Gerði afhentu GV gjafabréf upp á kr. 100.000.- til minningar um þann mikla kylfing sem hefði orðið 100 ára þann 16. desember síðastliðinn. Sigursteinn Leifsson barnabarn Gunnars afhenti Sigursveini Þórðarsyni formanni GV gjafabréfið. Er fjármagninu ætlað í barna- og unglingastarf GV. Afkomendur Gunnars sem stóðu að gjöfinni voru:

Leifur Gunnarsson – Inga Birna Sigursteinsdóttir Gunnar Guðni Leifsson – Ásta Kristjánsdóttir Sigursteinn Bjarni Leifsson – Helga Björk Ólafsdóttir

Stjórn GV þakkar kærlega fyrir stuðninginn.


Á aðalfundinum var Örlygur Helgi Grímsson valinn kylfingur ársins 2022 og Andri Erlingsson valinn sá efnilegasti.

Árið 2022 varð Örlygur Helgi sigursælasti kylfingur í sögu GV þegar hann hampaði meistaratitli GV í fimmtánda sinn. Hann sló þar með met Sveins Ársælssonar sem var meistari í fjórtán skipti. Örlygur Helgi hefur verið í fremstu röð kylfinga í Eyjum síðustu tvo áratugi og verið lykilmaður í sveit GV sem leikur í 1.deild. Örlygur, var ásamt tíu öðrum kylfingur úr Eyjum þátttakandi í Íslandsmótinu í höggleik og stóð sig með mikilli prýði.

Andri Erlingsson hefur á síðustu árum verið einn efnilegasti kylfingur Eyjamanna. Hann hefur verið að bæta sinn leik mikið undanfarin ár. Hann tók þátt í unglingamótaröð GSÍ, Íslandsmóti unglinga í höggleik sem og Íslandsmótinu í holukeppni. Þá tók hann þátt í fyrsta skipti í Íslandsmótinu í höggleik, hér í Eyjum síðastliðið sumar. Andri er farinn að banka á landsliðsdyrnar og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Stjórn GV óskar þeim Örlygi og Andra innilega til hamingju með titla sína.



49 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page