top of page
Search

Sigurbergur klúbbmeistari GV eftir 6 holu bráðabana!

Sigurbergur Sveinsson landaði rétt í þessu sínum fyrsta klúbbmeistaratitli GV er hann sigraði Andra Erlingsson í 6 holu bráðabana. Fyrir daginn hafði Sigurbergur 1 höggs forystu yfir Andra og voru þeir tveir í bílstjórasætinu í átt að titlinum. Lárus Garðar Long og Karl Haraldsson náðu að narta aðeins í hæla þeirra í upphafi hringsins en ógnuðu þó aldrei forystunni.

Andri og Sigurbergur skiptust á að vera í fyrsta sætinu yfir hringinn og var spennan mikil öllum stundum. Andri hafði tveggja högga forystu eftir 15 holur en á 16. fékk hann skolla og Sigurbergur fugl. Því var allt jafnt fyrir 2 seinustu holurnar. Þeir pöruðu báðir holur 17 og 18 og því þurfti að efla til bráðabana. Í honum voru holur 1 og 9 leiknar aftur og aftur þar til annar skoraði betur en hinn.

Báðir pöruðu þeir 1. og 9. holuna. Á 3. holu bráðabanans fengu þeir báðir skolla en stutt pútt fóru forgörðum fyrir sigri. 4. og 5. holu bráðabanans fóru þeir á pari og spennustigið var virkilega hátt. 9. holan var svo leikin í þriðja sinn og upphafshögg þeirra beggja enduðu á miðri braut um 80 metra frá holu. Sigurbergur setti innáhöggið um 3 metra frá en Andri var of stuttur og endaði í glompunni fyrir framan flötina. Andri átti þó gott högg úr glompunni og var um 2.5 metra frá holunni fyrir parinu. Sigurbergur var hálfan metra of stuttur í fuglapúttinu. Andri missti sitt pútt naumlega og Sigurbergur átti því um hálfan metra fyrir sigri. Hann setti það niður og landaði þar með sínum fyrsta klúbbmeistaratitli GV á ferlinum.

Óskum við Sigurbergi innilega til hamingju með titilinn.


Lokaniðurstaða mótsins var því þessi:

  1. sæti - Sigurbergur Sveinsson +14

  2. sæti - Andri Erlingsson +14

  3. sæti - Lárus Garðar Long +17

  4. sæti - Karl Haraldsson +20

  5. sæti - Jón Valgarð Gústafsson +27

  6. sæti - Rúnar Þór Karlsson +29


Í kvennaflokki bar Sigríður Lára Garðarsdóttir sigur úr býtum en hún lauk leik á +54. Spilamennska Sigríðar var stöðug en hennar besti hringur voru 79 högg á öðrum keppnisdegi. Óskum við Sísí Láru innilega til hamingju með titilinn.

Í öðru sæti var Katrín Harðardóttir á +85.

843 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page